Landupplýsingar
Landupplýsingar veita mikilvæga innsýn og styðja við ákvarðanatöku um nýtingu lands, vernd, þróun byggðar og samfélagsgerð
Alta nýtir landupplýsingar markvisst í starfi sínu. Við greinum fjölbreytilegar landupplýsingar og samspil þeirra til að styðja við stefnumótun og undirbyggja traustar forsendur ákvarðanatöku.
Oft verða til nýjar landupplýsingar í störfum okkar, t.d. um afmörkun skipulagsákvarðana - sem nefnt er stafrænt skipulag.
Hagnýting og greining
Landupplýsingar eru gögn um hvaðeina sem á sér staðsetningu eða afmörkun og halda þarf til haga margþættum upplýsingum um.
Dæmi: Lagnir í jörðu, rotþrær, tófugreni, skólaakstursleiðir, skipulagsreitir, lóðamörk, sveitarfélagamörk, friðlýst hús, hæðarlínur og ótalmargt fleira sem snýr að viðfangsefnum sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja.
Landupplýsingar eru jafnframt mikilvægar fyrir stafrænt skipulag auk vefsjáa og kortagerðar.
Aðstoð við opinn hugbúnað
Við leggjum líka mikið upp úr því að aðstoða viðskiptavini okkar við að tileinka sér landupplýsingar og vinnslu þeirra. Öll sveitarfélög og flestar stofnanir ættu að skilja eðli þeirra og notagildi. Hér eru upplýsingar um námskeið sem við bjóðum á þessu sviði.
Við getum aðstoðað við innleiðingu og rekstur landupplýsingahugbúnaðar sem er opinn og án leyfisgjalda, einkum QGIS, PostGIS, Geoserver og OpenLayers.
-
Hvaða hlutverki gegnir aðalskipulag?Aðalskipulag gefur heildarmynd af fyrirkomulagi byggðar og innviða í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þar kemur m.a. fram hvar landnotkun af hverju tagi er ætlað pláss, t.d. hvar iðnaður getur komið sér fyrir, hvaða svæði eru ætluð fyrir íbúðarbyggð og hvar ekki er gert ráð fyrir neinni mannvirkjagerð. Mótun aðalskipulagsins er líka mikilvægur vettvangur samtals íbúa um þróun sveitarfélagsins og um málamiðlanir milli ólíkra hagsmuna.
-
Hver er munurinn á svæðisskipulagi, aðalskipulagi, rammaskipulagi og deiliskipulagi?"Svæðisskipulag er sameiginlegt skipulag tveggja eða fleiri sveitarfélaga; aðalskipulag gefur heildarmynd af einu sveitarfélagi, rammaskipulag gefur yfirsýn yfir svæði eða málaflokk innan eins sveitarfélags og markar línur fyrir deiliskipulag sem kveður á um mannvirkjagerð á tilteknum reit.
-
Þurfa sveitarfélög að gera aðalskipulag?Já. Það er skylda hvers sveitarfélags að gera aðalskipulag og það á að ná til alls lands innan sveitarfélagamarka.
-
Hver ber ábyrgð á gerð aðalskipulags?Sveitastjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags en veitir skipulagsnefnd umboð til að móta tillögur í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.
-
Hve lengi er aðalskipulag í gildi?Aðalskipulag er í gildi í 12 - 20 ár. En við upphafs hvers kjörtímabils tekur sveitastjórn afstöðu til þess hvort endurskoða þurfi gildandi aðalskipulag.
-
Hver ber ábyrgð á gerð aðalskipulags?Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags en veitir skipulagsnefnd umboð til að móta tillögur í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.
-
Hvernig er aðalskipulag endurskoðað?Við endurskoðun aðalskipulags er farið eftir lögboðnu ferli skv. skipulagslögum. Fyrsta skrefið er að skipulagsnefnd tekur saman skjal sem kallast lýsing. Þar koma fram meginatriði sem endurskoðunin mun taka á og hvernig samráði við almenning verður háttað. Eftir að lýsingin hefur verið samþykkt af sveitarstjórn er hún kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma á framfæri ábendingum. Skipulagsstofnun og ýmsar fagstofnanir veita einnig umsögn á þessu stigi. Næst vinnur skipulagsnefnd tillögu að aðalskipulagi í samræmi við lýsinguna og tekur tillit til ábendinga. Haft er samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Þegar mótun tillögunnar er langt komin er hún borin undir íbúa og þeir fá aftur tækifæri til að benda á það sem betur má fara. Þegar endanleg tillaga að aðalskipulagi liggur fyrir sendir sveitastjórn hana til Skipulagsstofnunnar til athugunar. Þegar skipulagsnefnd hefur unnið úr athugasemdum Skipulagsstofnunnar er aðalskipulagið auglýst og öllum gefinn 6 vikna frestur til að skila skriflegum athugasemdum. Þegar búið er að afgreiða athugasemdir og umsagnir gengur skipulagsnefnd frá endanlegu aðalskipulagi sem sveitarstjórn þarf síðan að samþykkja. Aðalskipulag tekur gildi þegar samþykki sveitarstjórnar og staðfesting Skipulagsstofnunar hefur verið auglýst í Stjórnartíðindum.
-
Hvenær fær almenningur að koma með athugasemdir?Almenningur og aðrir hagsmunaaðilar fá tækifæri til að koma með athugasemdir á ýmsum stigum: Við kynningu lýsingar á skipulagsverkefninu í byrjun vinnunnar. Á opnum fundum sem haldnir eru í vinnuferlinu eða í gegnum aðrar leiðir, t.d. spurningakannanir. Þegar tillaga er í mótun og lögð fram til kynningar. Við auglýsingu fullbúinnar tillögu þegar gefinn er formlegur 6 vikna athugasemdafrestur.
-
Hvaða lög og reglur gilda?Skipulagslög nr. 123/2010 lýsa öllum meginreglum um gerð aðalskipulags en skipulagsreglugerð nr. 90/2013 útfærir lagaákvæðin nánar. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á framfylgd laganna og hefur eftirlit með því að aðalskipulag sé rétt fram sett. Að auki þarf að fylgja ákvæðum ýmissa annarra laga, t.d. um náttúruvernd, umhverfismat áætlana og fleiri.
-
Er hægt að breyta aðalskipulagi?Já og það er eðlilegt að gera þurfi breytingar á gildandi aðalskipulagi þegar nýjar þarfir eða kringumstæður koma upp. Við breytingu er einnig haft samráð við íbúa eins og áður er lýst og þannig tryggt að þeir geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Slíkt tekur tíma og því má búast við að breyting á aðalskipulagi taki 4-6 mánuði. Það er því mikilvægt að huga að skipulagsmálum tímanlega þegar mannvirkjagerð er fyrirhuguð sem ekki er þegar gert ráð fyrir í gildandi skipulagi.
-
Hvernig er aðalskipulag sett fram?Stefnu sveitarstjórnar í ýmsum málefnum er lýst í greinargerð (skýrslu) og þar koma einnig fram skipulagsákvæði (nokkurskonar leikreglur) fyrir tilgreinda staði og svæði. Afmarkanir þessara staða og svæða koma fram á skipulagsuppdrætti (korti), þar sem litir og tákn gefa til kynna hvers konar landnotkun er á ráðgerð.