top of page

Aðalskipulag

Alta hefur langa reynslu af gerð aðalskipulags með sveitarfélögum

Við leggjum áherslu á að skipulagið nýtist sem stjórntæki fyrir hagkvæma og vistvæna þróun umhverfis, atvinnu og byggðar.

 

Sérstaða Alta liggur m.a. í góðri yfirsýn og þekkingu ráðgjafa, samráði og virkri miðlun gagna til íbúa, atvinnulífs og kjörinna fulltrúa t.d. með vefsjám.

Öll aðalskipulög sem Alta hefur unnið síðustu ár eru stafræn aðalskipulög í opnum hugbúnaði. Sjá hér dæmi um vefsjá sem við gerðum fyrir Vestmannaeyjabæ við vinnslu aðalskipulags.

Framtíðarsýn sveitarfélags

Aðalskipulagsáætlanir eru mikilvæg stefnumótun til að raungera framtíðarsýn hvers sveitarfélags fyrir sig. Mikilvægt er að stefnan endurspegli vel tækifæri og áskoranir á hverjum stað, sé gerð í góðu samstarfi við kjörna fulltrúa og íbúa og að ferlið sé gegnsætt og lýðræðislegt.

Stafrænt skipulag

Öll aðalskipulög Alta eru stafræn sem þýðir að gögnin sem verða til í skipulagsgerðinni eru lifandi og gagnvirk. Uppdráttur aðalskipulagsins öðlast nýja vídd, í stað þess að vera bara teikning á blaði verður til gagnagrunnur sem nýtist sveitarfélaginu áfram í margvíslegu samhengi.

Stafrænu gögnin gefa líka færi á auknu gegnsæi og betra aðgengi almennings að aðalskipulagsgerðinni með vefsjá, sem er aðgengileg íbúum hvar sem er. Íbúar geta þannig hæglega kynnt sér aðalskipulagið á vinnslustigi og haft áhrif á mótun skipulagsins með skilvirkari hætti en áður.

Tengsl við aðrar áætlanir

Mikilvægt er að stefna aðalskipulags sé í góðu samræmi við aðra áætlanagerð, hvort sem það eru svæðisbundnar áætlanir, landsskipulagsstefnu eða alþjóðleg stefna á borð við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Framtíðarsýnin sem birtist í aðalskipulagi er þannig einnig tæki til að ná fram jákvæðum samfélagslegum breytingum sem hafa áhrif jafnt út á við sem inn á við.

Góð verkefnastjórn

Aðalskipulagsáætlanir krefjast ekki síst góðrar verkefnastjórnunar með skýrri tímalínu og skilningi á mikilvægi ferlisins sjálfs.

Loftmynd-landakotstún
Stafrænt aðalskipulag Eyja- og miklaholtshreppur
heimsmarkmið sameinuðuþjóðanna
  • Hvaða hlutverki gegnir aðalskipulag?
    Aðalskipulag gefur heildarmynd af fyrirkomulagi byggðar og innviða í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þar kemur m.a. fram hvar landnotkun af hverju tagi er ætlað pláss, t.d. hvar iðnaður getur komið sér fyrir, hvaða svæði eru ætluð fyrir íbúðarbyggð og hvar ekki er gert ráð fyrir neinni mannvirkjagerð. Mótun aðalskipulagsins er líka mikilvægur vettvangur samtals íbúa um þróun sveitarfélagsins og um málamiðlanir milli ólíkra hagsmuna.
  • Hver er munurinn á svæðisskipulagi, aðalskipulagi, rammaskipulagi og deiliskipulagi?"
    Svæðisskipulag er sameiginlegt skipulag tveggja eða fleiri sveitarfélaga; aðalskipulag gefur heildarmynd af einu sveitarfélagi, rammaskipulag gefur yfirsýn yfir svæði eða málaflokk innan eins sveitarfélags og markar línur fyrir deiliskipulag sem kveður á um mannvirkjagerð á tilteknum reit.
  • Þurfa sveitarfélög að gera aðalskipulag?
    Já. Það er skylda hvers sveitarfélags að gera aðalskipulag og það á að ná til alls lands innan sveitarfélagamarka.
  • Hver ber ábyrgð á gerð aðalskipulags?
    Sveitastjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags en veitir skipulagsnefnd umboð til að móta tillögur í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.
  • Hve lengi er aðalskipulag í gildi?
    Aðalskipulag er í gildi í 12 - 20 ár. En við upphafs hvers kjörtímabils tekur sveitastjórn afstöðu til þess hvort endurskoða þurfi gildandi aðalskipulag.
  • Hver ber ábyrgð á gerð aðalskipulags?
    Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð aðalskipulags en veitir skipulagsnefnd umboð til að móta tillögur í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.
  • Hvernig er aðalskipulag endurskoðað?
    Við endurskoðun aðalskipulags er farið eftir lögboðnu ferli skv. skipulagslögum. Fyrsta skrefið er að skipulagsnefnd tekur saman skjal sem kallast lýsing. Þar koma fram meginatriði sem endurskoðunin mun taka á og hvernig samráði við almenning verður háttað. Eftir að lýsingin hefur verið samþykkt af sveitarstjórn er hún kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma á framfæri ábendingum. Skipulagsstofnun og ýmsar fagstofnanir veita einnig umsögn á þessu stigi. Næst vinnur skipulagsnefnd tillögu að aðalskipulagi í samræmi við lýsinguna og tekur tillit til ábendinga. Haft er samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Þegar mótun tillögunnar er langt komin er hún borin undir íbúa og þeir fá aftur tækifæri til að benda á það sem betur má fara. Þegar endanleg tillaga að aðalskipulagi liggur fyrir sendir sveitastjórn hana til Skipulagsstofnunnar til athugunar. Þegar skipulagsnefnd hefur unnið úr athugasemdum Skipulagsstofnunnar er aðalskipulagið auglýst og öllum gefinn 6 vikna frestur til að skila skriflegum athugasemdum. Þegar búið er að afgreiða athugasemdir og umsagnir gengur skipulagsnefnd frá endanlegu aðalskipulagi sem sveitarstjórn þarf síðan að samþykkja. Aðalskipulag tekur gildi þegar samþykki sveitarstjórnar og staðfesting Skipulagsstofnunar hefur verið auglýst í Stjórnartíðindum.
  • Hvenær fær almenningur að koma með athugasemdir?
    Almenningur og aðrir hagsmunaaðilar fá tækifæri til að koma með athugasemdir á ýmsum stigum: Við kynningu lýsingar á skipulagsverkefninu í byrjun vinnunnar. Á opnum fundum sem haldnir eru í vinnuferlinu eða í gegnum aðrar leiðir, t.d. spurningakannanir. Þegar tillaga er í mótun og lögð fram til kynningar. Við auglýsingu fullbúinnar tillögu þegar gefinn er formlegur 6 vikna athugasemdafrestur.
  • Hvaða lög og reglur gilda?
    Skipulagslög nr. 123/2010 lýsa öllum meginreglum um gerð aðalskipulags en skipulagsreglugerð nr. 90/2013 útfærir lagaákvæðin nánar. Skipulagsstofnun ber ábyrgð á framfylgd laganna og hefur eftirlit með því að aðalskipulag sé rétt fram sett. Að auki þarf að fylgja ákvæðum ýmissa annarra laga, t.d. um náttúruvernd, umhverfismat áætlana og fleiri.
  • Er hægt að breyta aðalskipulagi?
    Já og það er eðlilegt að gera þurfi breytingar á gildandi aðalskipulagi þegar nýjar þarfir eða kringumstæður koma upp. Við breytingu er einnig haft samráð við íbúa eins og áður er lýst og þannig tryggt að þeir geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Slíkt tekur tíma og því má búast við að breyting á aðalskipulagi taki 4-6 mánuði. Það er því mikilvægt að huga að skipulagsmálum tímanlega þegar mannvirkjagerð er fyrirhuguð sem ekki er þegar gert ráð fyrir í gildandi skipulagi.
  • Hvernig er aðalskipulag sett fram?
    Stefnu sveitarstjórnar í ýmsum málefnum er lýst í greinargerð (skýrslu) og þar koma einnig fram skipulagsákvæði (nokkurskonar leikreglur) fyrir tilgreinda staði og svæði. Afmarkanir þessara staða og svæða koma fram á skipulagsuppdrætti (korti), þar sem litir og tákn gefa til kynna hvers konar landnotkun er á ráðgerð.

Tengd verkefni

Aðalskipulag Hornafjarðar

Aðalskipulag Seltjarnarness

Aðalskipulag Eyja- og Miklaholtshrepps

Gönguvænn og blágrænn Grundarfjörður

Miðbær Húsavíkur - Rammahluti aðalskipulags

Hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar

Aðalskipulag Þingeyjarsveitar

Aðalskipulag Vestmannaeyja

Aðalskipulag Grundarfjarðar

Yfirsýn um skipulagsáætlanir og skipulagsmál

Miðbær Akureyrar - Rammahluti aðalskipulags

Hugmyndasamkeppni um miðbæ Akureyrar

bottom of page