Urriðaholt fyrst með BREEAM

Við erum stolt af því að Urriðaholt er fyrsta hverfið á Íslandi sem fær vistvottun frá BREEAM en við hjá Alta höfum árum saman unnið með Urriðaholti hf. að skipulagi hverfisins. Nú er hægt að lesa um Urriðaholt á heimasíðu BREEAM.

Aðalskipulag Seltjarnarnesbæjar auglýst

Seltjarnarnesbær hefur auglýst tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi með gildistíma 2015-2033. Frestur er gefinn til áramóta til að koma á framfæri skriflegum athugasemdum. Sjá nánar tilkynningu á vef Seltjarnarnesbæjar. Alta hefur aðstoðað Seltjarnarnesbæ við endurskoðunina.

Uppbygging íbúðarhúsnæðis á Húsavík

Samhliða auknum umsvifum atvinnulífs á svæðinu á næstu árum má gera ráð fyrir töluverðri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Húsavík . Til að tryggja farsæla uppbyggingingu fékk Norðurþing Alta til liðs við sig til að greina núverandi stöðu á húsnæðismarkaði og leggja fram tillögur að forgangsröðun og áherslum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Húsavík.

Niðurstöður þessarar vinnu voru kynntar á kynningarfundi þann 16. júní sl. Mæting var góð og áhugaverðar umræður í kjölfarið. 

Sjá hér bæði greinargerð og kynningu Alta.

Erindi á umhverfismatsdegi

Hrafnhildur frá Alta og Hrafnkell svæðisskipulagsstjóri fyrir höfuðborgarsvæðið héldu erindi á umhverfismatsdegi Skipulagsstofnunar þann 9. júní. Þar fjölluðu þau um umhverfismat svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og hvernig það hafði mótandi áhrif á áætlunina.

Viltu vita meira? Hér er áhugavert viðtal við Ásdísi Hlökk frá Skipulagsstofnun þar sem hún fjallar vítt og breitt um umhverfismat og þar á meðal umhverfismat svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

Aðalskipulagsvefur í Grundarfirði

Endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar er hafin með aðstoð Alta. Opnaður hefur verið sérstakur kynningarvefur fyrir verkefnið undir vefslóðinni skipulag.grundarfjordur.is

Vefurinn er hugsaður til að auðvelda íbúum og öðrum að nálgast upplýsingar um endurskoðunina. Þar má lesa nánar um áætlunargerðina, nálgast ýmis gögn og fylgjast með framgangi vinnunnar. Í gegnum vefinn er einnig hægt að senda inn ábendingar og önnur skilaboð.

Nú er verið að leggja lokahönd á lýsingu skipulagsverkefnisins, en það er nokkurs konar „uppskrift” að verkinu sem framundan er við að móta nýtt skipulag. Lýsingin verður birt opinberlega þannig að íbúar og aðrir geti kynnt sér efni hennar og sent inn ábendingar eða athugasemdir. Lýsingin verður nánar auglýst síðar í þessum mánuði. Allar ábendingar um efni vefsins eða skipulagsmál eru vel þegnar og má senda beint í gegnum vefinn, með því að smella hér.

Bls 1 af 59

Upp